miðvikudagur, október 06, 2004 ::: Nú er komið að slökun!
Já, það er komið að því að slaka á, svo langt sem það að taka til telst til slökunar. Ritgerðin er búin, komin í hendur tveggja manna dómnefndar svo ég get ekkert frekar gert.
Í dag var umræðutími í Mannkynssögu IV svo ég þurfti að undirbúa mig fyrir það í gærkvöldi. Líkt og venjulega var enginn búinn að lesa þær greinar sem ég tók að mér að fjalla um í tímanum. Svo þetta fer alltaf út í það að ég held einhverja tölu og enginn veit hvað ég er að tala um. Næst ætla ég að fá eitthvað aðeins meira krassandi, enda höfum við Valur meiri tíma til að skipuleggja okkur saman nú en í september.
Allavega, ég er byrjaður á nýrri bók, skáldsögu, svo það er nú alvöru afslöppun. Það er ekkert jafnróandi og að lesa góða bók með góða tónlist áf fóninum. Í gær las ég í Heimsljósi á meðan ég hlustaði á Vespers eftir Vivaldi. Nisi dominus verður örugglega á fóninum aftur í kvöld. Svo ætla ég að lesa Salman Rushdie, Günter Grass og margt annað skemmtiefni. Kannski maður helli sér í einn Dostoyevsky til að koma sér í góða skapið.
Ég nenni ekki að tala um þessa ritgerð strax þar sem ég hef ekki gert neitt annað í heilan mánuð. Ég tjái mig bara einhvern tímann síðar og segi þá kannski frá skemmtilegustu punktum og fáránlegasta rökstuðningnum varðandi fóstureyðingar. Sumt var allavega ansi krassandi og harkalegt.
Ég er þreyttur og á eftir að taka rosalega mikið til í herberginu. Það er allt í rúst og ég þarf einhvern veginn að koma þessum rúmmeter af bókum sem nú hefur verið í stöflum á gólfinu mínu í tvo mánuði, einhvers staðar fyrir. Það er allt í hassi þarna inni.
Komið nóg í dag. Ég er þreyttur eftir fjóra klukkutíma af umræðutímum.