þriðjudagur, mars 29, 2005 ::: Þreytt og leiðinlegt Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að þetta blogg er orðið þreytt og leiðinlegt. Það var upphaflega búið til vegna Þýskalandsfararinnar forðum; hét lengi vel Þýska bloggið (reyndar man ég ekki hvort ég breytti því nokkurn tímann til baka). Nú er svo komið að ég nenni ekki á nokkurn hátt að breyta útliti þess, læra hvernig ég bý til linka á annað fólk eða nokkuð annað sem tengist þssu bloggi.
Því hef ég ákveðið að slútta færslum hér á blogspot, ætli sagnfræðingurinn í mér verði þó ekki til þess að ég vista gömlu færslurnar mínar á tölvuna mína á word-skjali. Þeir sem haldnir eru fortíðardýrkun geta þó líklegast skoðað eldri færslur þar sm ég ætla ekki að eyða þessu strax, allavega ekki fyrr en ég er búinn að vista þetta allt sjálfur.
þriðjudagur, mars 01, 2005 :::
Háskólar Ég er kominn inn í Rutgers með tilboð upp á fimm ára styrksáætlun. Sjáum til hvernig fer með aðra skóla; Yale var reyndar búinn að segja nei.
fimmtudagur, febrúar 03, 2005 :::
Ástæða þess að ég hef ekki bloggað nú í einn og hálfan mánuð er að ég vil halda í hefð sem tengist vinnunni í Iðu. Samkvæmt samningi búðarinnar við Dreifingarmiðstöðina þá megum við einungis endursenda bækur til þeirra 8 sinnum á ári. Ef við deilum þessu niður á 12 mánuði þá má ég endursenda bækur á eins og hálfs mánaðar fresti. Því væri sniðugt að blogga bara einu sinni á eins og hálfs mánaðar fresti.
Nei, vinnan er ekki farinn að taka mig svo hressilega á taugum að ég skipuleggi allt mitt líf samkvæmt þeirri klukku. Ég nennti bara ekki neinu í byrjun janúarmánaðar; Nema hvað? var farin af stað með miklu trukki og svoleiðis. Þegar við loks fengum tveggja vikna pásu lagðist ég í lestur á skáldsögum og las 4 bækur á þeim tíma, er reyndar kominn langleiðina með fimmtu bókina núna. Niðurstaðan er sú að His Dark Materials-trílógían hans Philip Pullman er algjör snilld; A Spy in the House of Love er helvíti góð og býður upp á miklar og skemmtilegar umræður, en The Rule of Four (a.k.a. Belladonnaskjalið) er helvítis drasl sem býður bara upp á leiðindi og svekkelsi yfir tímaeyðslunni. Ég hef eki enn náð mér yfir því hve síðustu tveir kaflarnir í bókinni voru langir og óendanlega leiðinlegir. Eins gott að ég las ekki bókina fyrir jólin því ég hefði varað alla við hve hún væri léleg og Egill hjá JPV hefði örugglega ekki verið ánægður með það. Allavega, forðist eins og heitan eldinn!
Núna er á náttborðinu The Amber Spyglass (þriðja bókin í umræddum þríleik Pullmans) og Little Birds, erótískar sögur eftir Anais Nin, sem Fífa úr vinnunni minni lánaði mér. Sú bók lofar góðu ef ég miða við fyrstu sex sögurnar.
Pirringur dagsins: Retis, sem sér um tölvukerfið hjá okkur í búðinni, tók sig til og straujaði aðaltölvuna hjá okkur á þriðjudaginn þar sem hún hefur verið í tómu tjóni það sem af er árinu. Þessi straujun varð til þess að allur póstlisti búðarinnar hvarf úr Outlook og þar með hálfs árs söfnun af póstföngum viðskiptavina sem vildu fá tilkynningar um atburði og uppákomur í búðinni. A listanum voru um 250 manns, eitthvað sem ekki verður reddað svo glatt. Retis fær þvi vonda kallinn frá mér í dag. Aaaarrrrgh!!!
Að lokum; þar sem ég er á kvöldvöktum þessa vikuna í búðinni er ég ávallt tiltækur í einn bjór eða tvo eftir vinnu. Áhugasamir hafi samband í Gemsann.
þriðjudagur, desember 14, 2004 ::: Nýr geisladiskur
Ég eignaðist nýjan geisladisk í kvöld, ekki vegna þess að ég keypti hann né heldur vegna þess að ég fékk hann gefins í kvöld. Nei, Guja var í kvöld að segja mér frá geisladiskunum sem hún keypti sér í London og þurfti endilega að kaupa sér geisladiskinn sem ég hafði keypt handa henni í jólagjöf einmitt í London í síðasta mánuði. Þar með er ég orðinn stoltur eigandi að sönglögum Samuels Barbers með þeim Cheryl Studer og Thomas Hampson að syngja.
Tví(höfða)skinnungur Ég veit ekki hvort fólk hefur tekið eftir því en undanfarna mánuði hefur Tvíhöfði tekið upp á nokkru sem þeir gagnrýndu harkalega fyrir nokkrum árum. Allavega, þá man ég eftir því að þegar þeir komu fyrst fram, og sérstaklega í kringum Fóstbræður, þá töluðu þeir um það að þeir væru að koma með nýja tegund af gríni inn á íslenskan sjónvarpsmarkað. Spaugstofan og þeirra form væri svo útdautt og þreytt og því væri þörf fyrir eitthvað ferskt á markaðnum.
Núna er Tvíhöfði kominn aftur í sjónvarp og það með Tvíhöfðafréttir á Stöð 2. Nú hafa þeir tekið nákvæmlega upp upphaflega formið á Spaugstofunni, sem var í formi fréttatíma. Er ekki eitthvað skrýtið við þetta þar sem ég hef ekki orðið var við neitt sem gefur til kynna að þetta sé einhver djóktilvísun hjá þeim.
mánudagur, nóvember 01, 2004 ::: Ahemm! Á laugardaginn hélt ég upp á útskriftina og var frekar góð mæting. Það besta við partýið var að allir voru á rassgatinu enda keypti ég tvo kassa af bjór, kút af rauðvíni, kút af hvítvíni til að bæta upp þegar fólk kláraði eigið vín. Einnig var drukkin heil flaska af Fisherman's sem ég hef ákveðið að sé nauðsynlegt í hverrt gott partý. Allavega kemur þetta fólki fljótt og örugglega af léttri ölvun yfir á hressilegt fyllerí. Var allavega rosalega gaman enda allar þær sögur sem ég hef heyrt í átt við eitthvað bull. Fólk að mumla á bekk á Bankastræti þegar í bæinn var komið, einnig var víst áralangt uppgjör mála úr Garðabænum, og að lokum drapst og ældi aðeins einn gestur.
Svo eru það fréttirnar.
Ég ligg bara í leti og fíla það í ræmur, fæ mér bjór þess á milli.
Ég er annars að fara til London ásamt Eika þann 14. nóvember að taka GRE-prófið. Ég ætla auk þess að taka TOEFL. Við verðum fram á næsta laugardag.
Rússinn hefur enn og aftur gefist upp á slövunum og er endurkoma hans áætluð 12. nóvember. Ég held meira að segja að ég sé fyrstur með þessar fréttir á vefsíðum.
Aðrar fréttir yrðu helst í formi drykkjufregna en ég ætti kannski bara að blogga um það jafnóðum. Allavega myndi ég blogga mun reglulegar ef svo væri. Stefni allavega að því.
mánudagur, október 11, 2004 ::: Helgin var góð Hitti skemmtilegt fólk í bænum á föstudaginn og fór síðan í fertugsafmæli hjá Lárusi Jóhannessyni í 12 tónum á laugardaginn. Gærdagurinn fór í þynnku, bíóferð á nýjustu Almodóvar-myndina, La mala educacion, og síðan fjögurra klukkutíma törn af því að raða geisladiskunum mínum í almennilega röð í hillurnar. Mikið þjóðþrifaverk það.
Í kvöld ætla ég að byrja á lausblöðum og síðan bókum ef tími gefst til. Mig langar bara að gerast letingi í svona mánuð.
miðvikudagur, október 06, 2004 ::: Nú er komið að slökun!
Já, það er komið að því að slaka á, svo langt sem það að taka til telst til slökunar. Ritgerðin er búin, komin í hendur tveggja manna dómnefndar svo ég get ekkert frekar gert.
Í dag var umræðutími í Mannkynssögu IV svo ég þurfti að undirbúa mig fyrir það í gærkvöldi. Líkt og venjulega var enginn búinn að lesa þær greinar sem ég tók að mér að fjalla um í tímanum. Svo þetta fer alltaf út í það að ég held einhverja tölu og enginn veit hvað ég er að tala um. Næst ætla ég að fá eitthvað aðeins meira krassandi, enda höfum við Valur meiri tíma til að skipuleggja okkur saman nú en í september.
Allavega, ég er byrjaður á nýrri bók, skáldsögu, svo það er nú alvöru afslöppun. Það er ekkert jafnróandi og að lesa góða bók með góða tónlist áf fóninum. Í gær las ég í Heimsljósi á meðan ég hlustaði á Vespers eftir Vivaldi. Nisi dominus verður örugglega á fóninum aftur í kvöld. Svo ætla ég að lesa Salman Rushdie, Günter Grass og margt annað skemmtiefni. Kannski maður helli sér í einn Dostoyevsky til að koma sér í góða skapið.
Ég nenni ekki að tala um þessa ritgerð strax þar sem ég hef ekki gert neitt annað í heilan mánuð. Ég tjái mig bara einhvern tímann síðar og segi þá kannski frá skemmtilegustu punktum og fáránlegasta rökstuðningnum varðandi fóstureyðingar. Sumt var allavega ansi krassandi og harkalegt.
Ég er þreyttur og á eftir að taka rosalega mikið til í herberginu. Það er allt í rúst og ég þarf einhvern veginn að koma þessum rúmmeter af bókum sem nú hefur verið í stöflum á gólfinu mínu í tvo mánuði, einhvers staðar fyrir. Það er allt í hassi þarna inni.
Komið nóg í dag. Ég er þreyttur eftir fjóra klukkutíma af umræðutímum.